Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 605. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1025  —  605. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2010.

1. Inngangur.
    Fólksflutningar og málefni innflytjenda, flóttamanna og þjóðernisminnihluta ásamt auknum viðgangi öfgastefnu í Evrópu, jafnréttismál og málefni kvenna, og heimskreppan og áhrif hennar settu mestan svip á starfsemi Evrópuráðsþingsins á árinu 2010.
    Af þessum málaflokkum voru málefni innflytjenda, flóttamanna og þjóðernisminnihluta hvað fyrirferðarmest og lýsti þingið þungum áhyggjum af þróun mála í álfunni hvað þessa hópa varðar. Má þar sérstaklega nefna stöðu sígauna, en í utandagskrárumræðum í október gagnrýndi Evrópuráðsþingið harðlega brottvísanir franskra yfirvalda á sígaunum. Heimskreppan hefur komið þungt niður á innflytjendum og minnihlutahópum, sem oftar en ekki eru fyrstir til að missa atvinnu og verða að auki fyrir auknum fordómum þegar efnahagsástand versnar. Á sama tíma leiðir kreppan til aukinna flutninga fólks frá fátækari ríkjum álfunnar til hinna ríkari í leit að tryggari efnahagslegri framtíð. Í þessu sambandi lýsti þingið sérstökum áhyggjum sínum af aukinni velgengni stjórnmálaflokka sem byggja stefnu sína á lítt duldum kynþáttafordómum og áréttaði að það væri skylda stjórnmálamanna að leyfa ekki fordómum að lita stjórnmálaumræðu og gera ekki innflytjendur og aðra minnihlutahópa að blórabögglum. Á sama tíma taldi þingið að einnig þyrfti að leita leiða til að bæta efnahagsástand í fátækari ríkjum álfunnar.
    Jafnréttismál og málefni kvenna voru einnig áberandi í starfi Evrópuráðsþingsins á árinu. Lýsti þingið m.a. stuðningi við nýlegar tillögur franskra félagasamtaka þess efnis að réttindi kvenna í Evrópusambandinu öllu miðist við framsæknustu löggjöf á sviði jafnréttis kynjanna sem í gildi er hverju sinni innan ríkja sambandsins, og hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að koma á umbótum til að tryggja frekar jafnrétti kynjanna. Einnig áréttaði þingið mikilvægi þess að sporna við svokölluðum „heiðursdrápum“.
    Hvað varðar réttindi annarra minnihlutahópa áréttaði Evrópuráðsþingið mikilvægi þess að tryggja möguleika fatlaðra til fullrar atvinnuþátttöku sem og fatlaðra barna til að njóta sömu menntunar og ófötluð börn. Í október ýtti þingið svo úr vör nýrri herferð gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum.
    Þá ályktaði Evrópuráðsþingið um ýmsa umdeilda atburði sem áttu sér stað í alþjóðasamfélaginu á árinu. Má þar nefna árás Ísraelshers á skipalest sem flytja átti hjálpargögn til Gasa- strandarinnar, en þingið komst m.a. að þeirri niðurstöðu að aðgerðir Ísraels hefðu falið í sér brot á alþjóðalögum. Einnig má nefna harðvítug átök milli íbúa af úsbekskum og kirgiskum uppruna í Fergana-dalnum og deilur um úrslit forsetakosninganna í Íran. Í lok árs vakti svo ný skýrsla svissneska þingmannsins Dicks Marty um meinta ómannúðlega meðferð á fólki og smygl á líffærum í Kósóvó mikla athygli, en í skýrslunni er núverandi forsætisráðherra Kósóvó m.a. sakaður um náin tengsl við skipulögð glæpasamtök.
    Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Thorbjørn Jagland, kynnti hugmyndir sínar að umbótum á uppbyggingu og starfsemi stofnunarinnar á árinu, en meginmarkmið þeirra er að styrkja pólitísk áhrif stofnunarinnar og auka skilvirkni hennar og sýnileika. Í því sambandi skipaði Evrópuráðsþingið nefnd undir forsæti Jean-Claude Mignon, formanns landsdeildar Frakklands, til að fylgjast með umbótaferlinu og halda sjónarmiðum þingsins á lofti. Leggur þingið áherslu á að hlutverk sitt verði styrkt, m.a. með vísan til hins aukna vægis sem Evrópuþingið hefur hlotnast eftir gildistöku Lissabon-sáttmálans.
    Á vettvangi Mannréttindadómstóls Evrópu gekk 14. samningsviðauki við mannréttindasáttmála Evrópu í gildi í júní eftir að Rússland varð 47. og síðasta ríkið til að fullgilda hann. Er búist við að gildistaka viðaukans muni létta á vinnuálagi dómstólsins, en um 30% kæra sem berast dómstólnum varða meint brot rússneska ríkisins á ákvæðum sáttmálans.
    Loks má nefna að Íslandsdeild átti tvíhliða fundi með landsdeildum Norðurlandanna og Þýskalands til að skýra þá stöðu sem þá var uppi í Icesave-deilunni í kjölfar synjunar forseta Íslands á að staðfesta lög um ríkisábyrgð á láni til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Til þess beitir ráðið sér fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa pólitíska heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í tíu fastanefndum og 24 undirnefndum þeirra en einnig starfa í þinginu fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Stjórnarnefnd kemur saman til fundar á sama tíma og þing eru haldin og á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins saman í hvert sinn sem Evrópuráðsþingið kemur saman.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á, og
          vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða álitum er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Í upphafi árs 2009 tók til starfa sérfræðinganefnd á grundvelli samningsins sem mun hafa eftirlit með því að aðildarríki uppfylli skuldbindingar sínar. Eins og stendur er sérstakur vinnuhópur að störfum sem stofnaður var til að vinna að gerð samnings um aðgerðir til að stemma stigu við heimilisofbeldi. Gerð samningsins er í samræmi við ályktun Evrópuráðsþingsins.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi undanskildu, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög og stutt við þá öru lýðræðisþróun sem orðið hefur eftir lok kalda stríðsins. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

3. Skipan Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.
    Í upphafi árs 2010 voru aðalmenn Íslandsdeildar Lilja Mósesdóttir formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steinunn Valdís Óskarsdóttir varaformaður, þingflokki Samfylkingar, og Birkir Jón Jónsson, þingflokki Framsóknarflokksins. Varamenn voru Þuríður Backman, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Magnús Orri Schram, þingflokki Samfylkingar, og Eygló Harðardóttir, þingflokki Framsóknarflokksins. Hinn 27. október 2010 tók Mörður Árnason, þingflokki Samfylkingar, sæti Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur í nefndinni. Magnea Marinósdóttir var ritari Íslandsdeildar til ágústloka og Kjartan Fjeldsted frá byrjun september.
    Skipan Íslandsdeildarinnar í nefndir Evrópuráðsþingsins í lok árs 2010 var sem hér segir:
          Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd: Lilja Mósesdóttir.
          Stjórnarnefnd: Lilja Mósesdóttir.
          Stjórnmálanefnd: Lilja Mósesdóttir.
          Laga- og mannréttindanefnd: Mörður Árnason.
          Jafnréttisnefnd: Mörður Árnason.
          Efnahags- og þróunarmálanefnd: Lilja Mósesdóttir.
          Umhverfis- og landbúnaðarnefnd: Birkir Jón Jónsson.
          Menningar-, mennta- og vísindanefnd: Birkir Jón Jónsson.
          Félags- og heilbrigðismálanefnd: Birkir Jón Jónsson.
          Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Mörður Árnason.

4. Starfsemi Íslandsdeildar 2010.
    Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu þar sem þátttaka í þingfundum Evrópuráðsþingsins var undirbúin. Hvað viðvíkur trúnaðarstörfum fyrir þingið gegndi Lilja Mósesdóttir, formaður Íslandsdeildar, embætti varaforseta líkt og á árinu 2009. Einnig hafði hún tvívegis orð fyrir flokkahópi sameinaðra evrópskra vinstrimanna á þingfundum, í umræðu um starfsemi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) og um stöðu sígauna í Evrópu.
    Þá átti Íslandsdeildin tvíhliða fundi með landsdeildum Norðurlandanna og Þýskalands á fundi þingsins í janúar til að skýra þeim frá stöðu mála í Icesave-deilunni við Bretland og Holland. Það sjónarmið kom víða fram að Ísland yrði að uppfylla skuldbindingar sínar en jafnframt var látinn í ljós ríkur vilji til að aðstoða eftir því sem mögulegt væri.

5. Fundir Evrópuráðsþingsins 2010.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins fara fram í Evrópuhöllinni í Strassborg og eru þeir haldnir fjórum sinnum á ári, að jafnaði í janúar, apríl, júní og september. Auk þess kemur framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiðir mál sem æðsta vald þingsins. Íslandsdeildin sótti þrjá þingfundi á árinu 2010 – í janúar, júní og október – en þátttaka í aprílfundinum féll niður vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Fyrsti fundur Evrópuráðsþingsins 25.–29. janúar.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Lilja Mósesdóttir formaður, Steinunn Valdís Óskarsdóttir varaformaður og Birkir Jón Jónsson, auk Magneu Marinósdóttur ritara. Til hliðar við þingfundinn voru haldnir tvíhliða fundir með landsdeildum Norðurlandanna og Þýskalands til að gera frekari grein fyrir stöðu mála á Íslandi eftir að forseti Íslands synjaði staðfestingar lögum um ríkisábyrgð lána frá Bretlandi og Hollandi til að borga innstæðueigendum Landsbankans í löndunum tveimur.
    Helstu mál á dagskrá þingsins voru kosning forseta þingsins, Evrópuráðssamningur um aðgerðir gegn mansali, spilling innan löggæslu, staða fjölmiðlafrelsis, gæsluvarðhald þeirra sem leita hælis eða búsetu innan Evrópu, stjórnarkreppa í Albaníu og aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum en við þær umræður var Steinunn Valdís Óskarsdóttir með erindi. Auk þess fór fram umræða um málefni Miðausturlanda og um Haítí vegna hörmunganna í kjölfar jarðskjálftans sem reið yfir 12. janúar 2010.
    Mevlüt Çavusoglu frá Tyrklandi var kosinn forseti á fyrsta fundardegi og tók hann við embætti af Lluís Maria de Puig frá Spáni. Çavusoglu er þingmaður flokkahóps hægrimanna á Evrópuráðsþinginu en flokkahóparnir, sem eru alls fimm talsins, skiptast samkvæmt samkomulagi sín á milli á um að tilnefna frambjóðendur til forseta þingsins. Çavusoglu var einn í framboði og er fyrsti tyrkneski þingmaðurinn sem gegnir embætti forseta síðan Tyrkland gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1949. Einnig fór fram kosning varaforseta, m.a. Lilju Mósesdóttur, sem stýrði fundi á lokadegi þingsins.
    Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, kynnti í ávarpi sínu til þingsins þær umbætur sem hann vill beita sér fyrir með stuðningi ráðherranefndarinnar og þingsins. Hann vitnaði í grein í The Economist þar sem vísað var í Evrópuráðið sem „another talking shop and human rights guardian based in Strasbourg“. Hann sagði að seinni hlutinn ætti a.m.k. við rök að styðjast og vitnaði síðan í Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, sem sagði: „Jaw, jaw is better than war, war.“ Síðan spurði hann hvar Evrópa stæði án mannréttindadómstólsins, Evrópunefndar um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndin) og Feneyjanefndarinnar svo dæmi séu tekin. Með Evrópuráðinu hafi mannréttindi verið stofnanagerð. Og í krafti allrar þeirrar umræðu sem færi fram um gildin sem aðildarríki Evrópuráðsins hafa komið sér saman um að stuðla að og standa vörð um, þá hafi stjórnskipun og stofnanir Evrópu tekið breytingum. Þegar Jagland ræddi þær breytingar sem hann vildi beita sér fyrir benti hann á að Evrópuráðið sameinaði öll ríki Evrópu undir einum hatti og að skilgreint hlutverk ráðsins væri að standa vörð um sameiginleg gildi í álfunni óháð hagsmunum auk þess sem ráðið hefði bæði umboð og tæki til að hafa eftirlit með framfylgd skuldbindinga. Innan ráðsins væri að finna gífurlega mikla þekkingu og reynslu og að lokum væri Evrópuráðið eina fjölþjóðlega stofnunin sem hefði þing sem gegndi formlegu hlutverki í starfseminni. Hins vegar væri nauðsynlegt að gera stofnunina sýnilegri og skilvirkari að mati framkvæmdastjórans og til þess að svo gæti orðið þyrfti að bæta stjórnsýslu og upplýsingamiðlun stofnunarinnar, skerpa á hlutverki stjórnmáladeildarinnar, m.a. með því að efla greiningarvinnu til að geta betur séð fyrir áskoranir og grípa til viðeigandi aðgerða, forgangsraða og einblína á verkefni sem skila árangri og koma á innra gæðaeftirliti þar sem lagt yrði mat á árangur af starfi stofnunarinnar og að lokum að gera mannréttindadómstólinn skilvirkari í störfum sínum.
    Evrópuráðssamningur um aðgerðir gegn mansali frá 3. maí 2005 gekk í gildi 1. febrúar 2008. Markmið samningsins er að koma í veg fyrir mansal í öllum sínum myndum og bæta réttarstöðu og vitnavernd fórnarlamba, og auðvelda þar með saksókn gegn þeim sem standa að baki mansali. Það sem einkennir samning Evrópuráðsins í samanburði við aðra alþjóðasamninga er að hann gengur skrefi lengra í ákvæðum um vernd fórnarlamba og leggur jákvæðar skyldur á herðar stjórnvalda. Sem dæmi er gerð sú krafa til stjórnvalda að draga úr eftirspurn eftir fórnarlömbum mansals. Til að uppræta mansal þurfa aðildarríki Evrópuráðsins hins vegar að fullgilda samninginn og þar með samræma löggjöf sína og eiga samvinnu um aðgerðir vegna alþjóðlegs eðlis mansals. Alls hafa 26 af 47 aðildarríkjum Evrópuráðsins fullgilt samninginn. Á fundinum voru þau ríki sem enn hafa ekki fullgilt samninginn, áheyrnarríki Evrópuráðsins og Evrópusambandið, hvött til að fullgilda hann hið fyrsta. Einnig var kallað eftir því að sérfræðinganefndin sem hefur eftirlit með framkvæmd samningsins (GRETA) fengi bæði nægilegan fjölda starfsmanna og fjármagn til starfsemi sinnar. Að lokum var lagt til að haldin yrði ráðstefna árið 2010 um aðgerðir gegn mansali. Í tengslum við umræðuna var fundur með föður fórnarlambs mansals frá Rússlandi, Níkolaj Míkhajlovitsj Rantsev, en mál hans gegn stjórnvöldum í Kýpur og Rússlandi var tekið fyrir hjá Mannréttindadómstól Evrópu, sem komst að þeirri niðurstöðu hinn 7. janúar 2010 að viðkomandi ríki hefðu brugðist skyldum sínum gagnvart fórnarlambinu sem nú er látið.
    Spilling meðal dómara, saksóknara og lögreglu grefur undan réttarkerfinu og í umræðu um málið á þinginu voru ríki hvött til þess m.a. að láta hæfniskröfur ráða vali við mannaráðningar og að setja sér siðareglur.
    Fjölmiðlafrelsi á víða undir högg að sækja og öryggi fréttamanna að sama skapi. Evrópuráðsþingið samþykkti tilmæli til ráðherraráðsins þar sem m.a. er farið fram á að meiðyrðalöggjöf sé ekki notuð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir gagnrýna fjölmiðlaumræðu og hvatt var til þess að upplýsingum um meint brot á fjölmiðlafrelsi yrði kerfisbundið safnað saman í því skyni að kortleggja vandann og koma með tillögur að aðgerðum til úrbóta.
    Fjöldi þeirra sem leita hælis eða búsetu í Evrópu hefur farið vaxandi undanfarin ár. Samhliða auknum fjölda hælisleitenda og innflytjenda hefur gæsluvarðhaldsvist færst í aukana á meðan verið er að ákvarða í málum viðkomandi einstaklinga. Í ljósi þessa kynnti Evrópuráðsþingið leiðbeinandi reglur um gæsluvarðhaldsvist og viðmið um lágmarksaðbúnað gæsluvarðhaldsvistarvera og beindi auk þess þeim tilmælum til ráðherraráðsins að taka slíkar reglur upp. Einnig var hvatt til þess að aðildarríkin notuðu aðrar aðferðir en gæsluvarðhaldsvist, eins og dvöl í sérstökum húsakynnum, lausn á grundvelli trygginga af einhverju tagi eða rafrænt eftirlit með þeim einstaklingum sem biðu ákvörðunar yfirvalda.
    Stjórnarkreppa hefur ríkt í Albaníu síðan þingskosningarnar fóru fram í júní 2009. Stjórnarandstaðan, sem neitar að viðurkenna úrslit kosninganna þvert á niðurstöðu alþjóðlegra kosningaeftirlitsmanna, hefur sniðgengið þingið síðan kosningarnar fóru fram. Evrópuráðsþingið beindi þeim tilmælum til stjórnar að stofna sérstaka rannsóknarnefnd til að skoða framkvæmd og úrslit kosninganna og þeim tilmælum til stjórnarandstöðunnar að taka þátt í þingstörfum á meðan kosningarnar væru í skoðun. Jafnframt að forsætisnefnd Evrópuráðsþingsins sæki Albaníu heim og aðstoði forseta landsins við að miðla málum í deilum stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Í umræðum um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum í krafti fyrirkomulags kosningalöggjafar kom fram að eingöngu 20% þingmanna og 5% forsætisráðherra væru kvenkyns. Það væri ógn við lýðræði. Í ræðu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur var vikið að stöðunni hérlendis eftir síðustu Alþingiskosningar þar sem hlutur kvenna á þingi fór úr 31% í 43% og þar sem kona varð í fyrsta sinn forsætisráðherra. Hún benti á að staðan hér heima væri þó engin tilviljun þar sem báðir stjórnarflokkarnir hefðu fyrir kosningar beitt sér fyrir því að hafa jafnan fjölda kvenna og karla á framboðslistum sínum og einnig notað fléttulista til að tryggja að jafnmörg þingsæti féllu í skaut karlkyns og kvenkyns þingmanna. Í ljósi tilmæla Evrópuráðsþingsins um að beita m.a. aðferðum í anda jákvæðrar mismununar, eins og kynjakvóta, til að auka hlut kvenna í stjórnmálum benti hún á að í reynd hafi kynjakvóti verið í gildi í aldaraðir þar sem kynferði karla frekar en einstaklingsbundnir hæfileikar og geta hafi ráðið miklu um dreifingu valda í samfélaginu bæði í stjórnmálum og efnahagsmálum. Það væri því ekkert að því að beita sömu aðferðum en með formlegum hætti við að vinna upp hið sögulega forskot sem karlar hafa á konur.
    Utandagskrárumræða fór fram um ástandið á Haíti eftir jarðskjálfann 12. janúar 2010. Var því fagnað hversu vel alþjóðasamfélagið hefði brugðist við en jafnframt gagnrýnt að dreifing hjálparganga hefði ekki verið nógu vel skipulögð.
    Í umræðu um málefni Miðausturlanda var frumkvæði Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, fagnað auk heimsókna Hillary Clinton, bandaríska utanríkisráðherrans, yfirlýsingu utanríkisráðherra ESB frá 8. desember 2009, friðarfrumkvæði arabalanda og aðkomu Rússa að lausn deilunnar milli stjórna Palestínu og Ísraels. Voru fulltrúar beggja þjóða hvattir til að setjast að samningaborðinu að nýju til að ræða „tveggja ríkja – tveggja þjóða“ lausnina. Daniel Ayalon, aðstoðarutanríkisráðherra Ísraels, og Mohammad Shtayyeh, ráðherra opinberra framkvæmda og húsnæðismála í heimastjórn Palestínu, fluttu ávörp.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í París 12. mars.
    Formaður Íslandsdeildar, Lilja Mósesdóttir, sótti fundi framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins dagana 11.–12. mars ásamt Magneu Marinósdóttur.
    Fundur stjórnarnefndar var settur af nýkjörnum forseta þingsins, Mevlüt Cavusoglu. Á dagskrá var afgreiðsla mála til nefnda þingsins og lokaafgreiðsla ályktana og álita. Fyrsta mál á dagskrá var afgreiðsla ályktunar um sameiginlega túlkun Evrópuráðsþingsins og Evrópuráðsins á reglum sem gilda um fyrirkomulag og framkvæmd kosninga til embættis framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Forsaga málsins er ágreiningur sem varð milli þingsins og ráðherranefndarinnar um kosningu framkvæmdastjóra árið 2009. Í máli skýrsluhöfundar kom fram að erfitt væri að breyta reglunum sjálfum þar sem það kallaði á breytingar á stofnsáttmála Evrópuráðsins og samþykki allra 47 aðildarríkja ráðsins. Sú leið að ná samkomulagi um sameiginlega túlkun á gildandi reglum var því farin í staðinn. Meðal þess sem náðist samstaða um var áhersla á hæfni frambjóðenda óháð stjórnmálalegum bakgrunni, að gæta jafnréttissjónarmiða í meira mæli en verið hefur og að ráðherranefndin mundi ekki kynna endanlega frambjóðendalista fyrr en að höfðu samráði við þingið. Í umræðu um málið var lögð áhersla á möguleika þingmanna til að hafa áhrif á útnefningu frambjóðenda einstakra ríkisstjórna. Fundarmenn voru síðan almennt sammála um að samkomulagið milli þingsins og ráðherranefndarinnar um túlkun á reglunum væri framför en á sama tíma kom fram sú skoðun að Evrópuráðsþingið ætti að vinna að því að fá aukin völd í stað þess að vera einungis ráðgefandi þing. Breytingin sem hefur átt sér stað undanfarin ár innan ESB á valdahlutföllunum á milli Evrópusambandsins og Evrópuþingsins var tekin sem dæmi og rætt um að þingið ætti að geta átt fundi með ráðherrum en ekki eingöngu sendiherrum eða fastafulltrúum Evrópuráðsins.
    Næst voru kynnt drög að sáttmála Evrópuráðsins um aðgerðir gegn fölsuðum lyfjum og sambærilegum glæpum sem fela í sér ógn við almannaheilsu. Fölsuð lyf geta ýmist verið án virkni (gervilyf eða lyfleysa) eða beinlínis innihaldið efni sem eru hættuleg neytendum. Algengast er að fólk kaupi lyf til að léttast, flensulyf og lyf gegn getuleysi sem reynast vera fölsuð. Samkvæmt könnun hefur um 21% Evrópubúa keypt lyf á svörtum markaði en algengast er að fölsuð lyf séu keypt í gegnum netið, á ferðalögum erlendis, á næturklúbbum eða með milligöngu vina. Kom fram í umræðunni að m.a. hryðjuverkasamtök fjármagni starfsemi sína með sölu á fölsuðum lyfum. Skýrsluhöfundur tók fram að hann hefði átt nána samvinnu við þingmenn frá Rússlandi en þar í landi er framboð á fölsuðum lyfjum verulegt vandamál. Skýrsluhöfundur átti einnig samvinnu við Evrópusambandið og franska þingmenn á meðan Frakkland var með formennsku í ESB. Sáttmálinn er fyrsti sinnar tegundar en hingað til hefur gengið hægt að vinna slíkum sáttmála fylgi, ekki síst vegna andstöðu frá lyfjaiðnaðinum. Lagt er til að öll ríki eigi að geta skrifað undir og fullgilt sáttmálann, ekki eingöngu aðildarríki Evrópuráðsins. Að sama skapi er lögð áhersla á að aðrar alþjóðastofnanir geri ekki sinn eigin sáttmála heldur óski eftir því við aðildarríki sín til að gerast aðilar að sáttmála Evrópuráðsins.
    Mikil umræða varð um álit efnahagsnefndar þingsins um viðauka við samning Evrópuráðsins og Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum. Einkum varð umræða um það að nafngreina ríki sem veita skattaskjól og heimild til að kalla eftir upplýsingum þremur árum aftur í tímann við rannsókn skattsvikamála. Ríkin sem voru nafngreind í ályktuninni eiga það sameiginlegt að veita skattaskjól á grundvelli tvíhliða samninga sem eru settir ofar alþjóðlegum viðmiðunum og samningum. Ríkin eru Austurríki, Liechtenstein, Lúxemborg og Sviss. Þingmenn þeirra andmæltu því að þau væru nafngreind sérstaklega og héldu því fram að sú krafa að kalla mætti eftir upplýsingum aftur í tímann gengi gegn lögum um persónuvernd og trúverðugleika þeirra tvíhliða samninga, laga og reglna sem viðskiptavinir búa við. Það mundi leiða til vantrausts á viðkomandi ríki og grafa undan samkeppnisstöðu Evrópu almennt samanborið við Asíu. Skýrsluhöfundur lagði áherslu á mikilvægi þess að halda uppi meginreglum réttarríkisins sem m.a. fælu í sér að geta kallað eftir upplýsingum aftur í tímann en eingöngu í þeim tilvikum sem staðfestur grunur um glæpsamlegt athæfi á sviði skattamála lægi fyrir. Þeir sem hreyfðu andmælum urðu að láta í minni pokann í atkvæðagreiðslunni og ályktunin var samþykkt án breytinga.
    Að lokum lagði Tiny Kox, formaður flokkahóps sameinaðra evrópskra vinstrimanna á Evrópuráðsþinginu, fram breytingartillögu við ályktun um kynbundinn launamun að frumkvæði Lilju Mósesdóttur, sem varð að yfirgefa fundinn áður en yfir lauk. Í ályktunartillögunni var vísað í norska löggjöf um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Breytingartillagan, sem var samþykkt, gekk út á að kynna einnig til sögunnar lög sem nýverið höfðu verið sett á Íslandi um að í stjórnum opinberra hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en þrjá stjórnarmenn skyldi hlutfall hvors kyns vera a.m.k. 40% í lok árs 2013.

Þriðji fundur Evrópuráðsþingsins 21.–25. júní.
    Fundur Evrópuráðsþingsins var haldinn í Strassborg dagana 21.–25. júní. Fyrir hönd Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Lilja Mósesdóttir, formaður, Magnús Orri Schram og Eygló Harðardóttir ásamt Magneu Marinósdóttur ritara.
    Auk þeirra mála sem voru á dagskrá fundarins var ákveðið að taka til utandagskrárumræðu árás Ísraelshers 31. maí 2010 á skipalest á leiðinni til Gasastrandarinnar með neyðaraðstoð og átökin í Kirgistan, auk þess sem forseti Evrópuráðsþingsins og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir fordæmdu sprengjuárás á almenningsvagn í Istanbúl 22. júní 2010 þar sem þrír létu lífið, þar af eitt barn.
    Evrópuráðsþingið samþykkti ályktun þar sem árás Ísraelshers á skipalest var fordæmd. Heitar umræður fóru fram þar sem fulltrúar ríkisstjórnar Ísraels réttlættu aðgerðir hersins. Vísað var til þess að öll skipin að einu undanskildu hefðu fengið heimild til að sigla í höfn til affermingar. Skipið þar sem átökin urðu og níu tyrkneskir ríkisborgarar létu lífið hafi hins vegar verið stöðvað vegna rökstudds gruns um að maður að nafni Sakir Yildirim væri um borð ásamt einum 100 liðsmönnum í skotheldum vestum. Sakir Yildirim, sem hefur bæði tyrkneskan og breskan ríkisborgararétt, er formaður samtakanna sem skipulögðu ferðina til Gasa og hefur samkvæmt fulltrúum Ísraelsstjórnar meint tengsl við m.a. Hamas á Gasa og Al-Kaída. Þátttaka Yildirim og hans manna þótti vera til vitnis um að tilgangur ferðarinnar væri ekki eingöngu friðsamlegur. Magnús Orri Schram greindi frá því í umræðunni að árásin hefði bæði verið fordæmd af utanríkisráðherra Íslands og meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis. Magnús Orri sagði jafnframt að enginn andmælti rétti Ísraels til að verja þjóðaröryggi sitt. Þegar það væri hins vegar gert á kostnað velferðar og öryggis almennra borgara á Gasaströndinni og Vesturbakkanum fæli það í sér brot á alþjóðalögum sem kallaði á hörð viðbrögð. Þjóðaröryggisaðgerðir Ísraela sem bitnuðu verst á almenningi ýttu enn fremur undir öfgar, hryðjuverk og vítahring ofbeldis sem gengi þvert á markmið um friðsamlega lausn deilunnar fyrir botni Miðjarðarhafs.
    Í umræðunni um átökin í Kirgistan, sem urðu um tveimur mánuðum eftir stjórnarskiptin í landinu í apríl 2010, þar sem Roza Otunbaeva, fyrrverandi sendiherra og utanríkisráðherra, tók við sem forseti í bráðabirgðastjórn landsins, var lögð áhersla á að stjórnvöld í Úsbekistan héldu landamærum sínum opnum fyrir flóttafólki á meðan alþjóðastofnanir í samvinnu við ríkisstjórn landsins ynnu að því að tryggja öryggi og frið. Átökin, sem urðu á milli hópa Kirgisa og Úsbeka í Fergana-dalnum þar sem 85% íbúanna eru Kirgisar, leiddu til dauða nokkur hundruð manns auk þess sem um 400 þúsund manns flúðu yfir til Úsbekistans. Í umræðunni komu einnig fram áhyggjur af því að Fergana-dalurinn væri flutningaleið undir stjórn talibana fyrir eiturlyf frá Afganistan til Evrópu. Rússneskir þingmenn hvöttu önnur ríki til að veita fjárhagslegan stuðning til uppbyggingar í Fergana-dalnum, m.a. til að vega upp á móti auknum ítökum eiturlyfjasmyglara á svæðinu en auk Rússa, sem hafa herstöðvar í Kirgistan, hafa bandarísk stjórnvöld aðstöðu í landinu til liðs- og vöruflutninga til og frá Afganistan.
    Balkanskaginn var nokkuð í brennidepli á fundinum og fluttu erindi m.a. forsetar Makedóníu og Króatíu, Gjorgje Ivanov og Ivo Josipovic, auk utanríkisráðherra Makedóníu, Antonio Milososki, og forsætisráðherra Svartfjallalands, Milo Djukanovic. Forseti Króatíu sagði m.a. að samningaviðræður við ESB væri á lokastigi og bráðlega yrði Króatía 28. aðildarríki ESB og forsætisráðherra Svartfjallalands þakkaði Evrópuráðinu fyrir þá aðstoð sem ríkið hefur fengið síðan það hlaut aðild að ráðinu árið 2007. Auk þess var ástandið í Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu og Kósóvó til umræðu. Evrópuráðsþingið samþykkti ályktun þar sem óskað er eftir nánari samvinnu við þingið í Kósóvó. Að lokum kom til umræðu skýrsla um reynsluna af vitnavernd í tengslum við rannsókn stríðsglæpa í Bosníu og Hersegóvínu, Kósóvó, Króatíu, Serbíu og Svartfjallalandi fyrir innanlandsdómstólum og stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna, sem fer með mál fyrrum Júgóslavíu. Í skýrslunni kemur fram að vitnaverndinni sé ábótavant í löndunum sjálfum og dæmi tekin um vitni sem hafði verið hótað og jafnvel myrt. Skorað var á ríkin að bæta vitnaverndina enda er það forsenda þess að hægt sé að draga stríðsglæpamenn til saka.
    Í tilefni af umræðu um stöðu sígauna, sem lengi hafa þurft að þola alvarlegt misrétti, flutti ávarp leikkonan Fanny Ardant, verndari baráttuherferðar Evrópuráðsins í málefnum sígauna. Í ræðu sinni las hún upp bréf sem tónskáldið Franz Liszt hafði skrifað um hlutskipti sígauna en hann varð fyrir miklum áhrifum af tónlistarhefð þeirra. Lilja Mósesdóttir tók til máls í umræðunni sem talsmaður flokkahóps sameinaðra evrópskra vinstrimanna. Hún benti á mikilvægi þess að bæta söfnun tölfræðilegra gagna þar sem greint væri á milli fólks á grundvelli m.a. þjóðernis eða uppruna og kynferðis. Markmiðið væri að bæta upplýsingasöfnun um stöðu minnihlutahópa með það að leiðarljósi að bæta stefnumótun og aðgerðir í þágu þeirra. Mikilvægt væri að tryggja að slíkar upplýsingar væri ekki notaðar í öðrum tilgangi. Hvatti hún til þess að hagstofa Evrópu (EUROSTAT) væri fengin til þess að veita hagstofum í Evrópu aðstoð við að betrumbæta upplýsingaöflun í þessum tilgangi. Að lokum gerði hún að umtalsefni stöðu kvenna innan raða sígauna sem þurfa að þola misrétti vegna kynferðis til viðbótar misréttinu sem sígaunar sem þjóðarbrot verða fyrir í Evrópu.
    Eygló Harðardóttir tók til máls sem talsmaður flokkahóps frjálslyndra demókrata í umræðu um mannsæmandi lífeyrisréttindi kvenna en bæði fjármálakreppan og breytt aldurssamsetning þjóða hefur ýtt undir vilja til endurskoðunar á lífeyrisskerfum Evrópu. Eygló benti á að launamunur á vinnumarkaði milli karla og kvenna gerði það að verkum að lífeyrisgreiðslur til kvenna væru oft lægri en til karla. Gilti þetta bæði á Íslandi og hjá öðrum Evrópuþjóðum. Margt gerði það að verkum að konur væru tekjulægri en karlar, m.a. hlutfallslega mikil þátttaka kvenna í hlutastörfum og ólaunuðum störfum vegna umönnunar barna og heimilis. Konur tækju þannig á sig fórnarkostnaðinn við að stofna fjölskyldur þrátt fyrir að jafnrétti ætti að ríkja samkvæmt lögum. Lífeyriskerfin, þar á meðal það íslenska, hefðu ekki tekið nægjanlegt tillit til þessa kynjamunar og því þyrfti að breyta á meðan áfram væri unnið að því að tryggja launajafnrétti á vinnumarkaði.
    Í umræðu um stöðu múslima í Evrópu var rætt um það aðkast sem múslimar verða fyrir bæði að hálfu íslamskra öfgamanna og almennings á Vesturlöndum sem gerir ekki greinarmun á íslam sem trú og íslamistum sem nota trúna í pólitískum tilgangi. Í kjölfarið var rætt um mikilvægi þess að finna leiðir til að stemma stigu við hvoru tveggja. Þingið samþykkti einnig ályktun þar sem almennu banni við því að konur klæðist búrkum eða öðrum trúarlegum klæðnaði er andmælt með þeim rökum að trúarlegur klæðnaður kvenna sé hluti af vali þeirra í trúarlegum efnum. Það að neyða konur til að vera í trúarlegum klæðum var fordæmt á sama tíma en skorað á aðildarríki Evrópuráðsins að virða valfrelsi kvenna þegar kemur að trúarlegum klæðnaði nema öryggisástæður liggi við eða kröfur í starfi.
    Í umræðu um baráttuna gegn hryðjuverkum í Norður-Kákasus hvatti Evrópuráðsþingið rússnesk stjórnvöld til að beita sér í baráttunni án þess að brjóta á grundvallarmannréttindum. Í tilefni umræðunnar flutti forseti lýðveldisins Ingúsetíu, Júnús-Bjek Jevkúrov, ávarp þar sem hann fjallaði um þau vandamál sem við er að glíma í norðanverðum Kákasusfjöllum.
    Auk þess samþykkti Evrópuráðsþingið ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til að banna markaðssetningu og notkun hátíðnihljóðbúnaðar sem notaður hefur verið af lögreglu til að leysa upp hópa ungs fólks en um er að ræða hljóð sem eingöngu ungt fólk nær að nema.
    Evrópuráðsþingið ályktaði jafnframt um svínaflensuna þar sem skorað er á stjórnvöld að stuðla að auknu gagnsæi þegar kemur að viðbrögðum við inflúensu en nokkuð þykir hafa borið á því að ýtt hafi verið undir nokkurs konar svínaflensufár sem hafi þjónað hagsmunum þeirra sem framleiða og selja bóluefni.

Fjórði fundur Evrópuráðsþingsins 4.–8. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Lilja Mósesdóttir, formaður, og Birkir Jón Jónsson, auk Kjartans Fjeldsted ritara. Helstu mál á dagskrá voru málefni innflytjenda og baráttan gegn öfgastefnu, ástand efnahagsmála og aðgerðir til að bregðast við efnahagskreppunni og málefni barna. Hæst bar þó utandagskrárumræðu um málefni sígauna sem stofnað var til vegna aðgerða Frakklandsstjórnar gegn ólöglegum búðum innflytjenda.
    Í umræðunni um stöðu sígauna í Evrópu voru Frakkar harðlega gagnrýndir fyrir framgöngu sína gegn búðum sígauna og brottvikningu þeirra úr landi. Í ályktun þingsins kemur fram að þingið hafi þungar áhyggjur af þeirri þróun, sem greina má víða í álfunni, að öfgahægriflokkar nái sífellt betri árangri í kosningum og að aðrir flokkar taki í síauknum mæli upp orðræðu þeirra til að komast hjá fylgistapi. Ótækt sé að stjórnmálamenn í ýmsum Evrópuríkjum hafi í frammi orðræðu sem geri sígauna að blórabögglum og tengi þá við glæpi og smygl, ekki síst í ljósi þess að þingið ályktaði nýlega um nauðsyn þess að bæta stöðu þessa minnihlutahóps í álfunni (sbr. ályktun 1740). Stjórnmálamenn beri sérstaka ábyrgð þegar kemur að því að eyða neikvæðum staðalmyndum um sígauna og aðra minnihlutahópa úr orðræðu stjórnmálanna. Í máli ýmissa þingmanna kom fram að málefni sígauna væru komin í öngstræti og að líta þyrfti heildstætt á vandann. Sérstaklega þurfi að taka á þeirri mismunun sem sígaunar verða fyrir í upprunalöndum sínum og tryggja þeim tækifæri til að aðlaga sig samfélaginu. Einn þingmaður harmaði að fulltrúar sígauna sjálfra væru sjaldan hafðir með í ráðum þegar rætt væri um lausnir á málefnum þeirra. Allnokkrar breytingartillögur bárust frá þingmönnum í frönsku landsdeildinni sem flestar miðuðu að því að milda orðalag ályktunarinnar.
    Í ályktun þingsins um baráttuna gegn öfgastefnu er lýst áhyggjum af því að í skjóli þeirra réttinda sem lýðræðishefðir Evrópu veita borgurum þrífist hópar með stefnumál sem standa í hrópandi andstöðu við þær hefðir og sem hvetji í sumum tilfellum beinlínis til ofbeldis. Þetta sé sérstaklega raunin með stjórnmálaflokka sem byggist á kynþáttafordómum en sumir þeirra hafi notið aukins kjörfylgis í kosningum í nokkrum aðildarríkja Evrópuráðsins. Aukið aðdráttarafl íslamskrar öfgastefnu tengist þessari þróun en boðskapur hennar nái í auknum mæli til ungra múslima í álfunni, einmitt vegna þeirra fordóma og mismununar sem þeir þurfa að búa við í ríkari mæli en aðrir þjóðfélagshópar. Lýstu sumir þingmenn áhyggjum af því að auknir fólksflutningar frá fátækari ríkjum Evrópu til hinna ríkari ættu sinn þátt í þeirri auknu hörku sem færst hefur í málefni innflytjenda. Til að sporna við þessari þróun væri nauðsynlegt að stuðla að bættu efnahagsástandi í fátækari ríkjum álfunnar.
    Meðal tignargesta sem ávörpuðu fundinn var Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands. Í máli hans kom meðal annars fram að mannréttindi væru hornsteinn utanríkisstefnu landsins. Til að mynda berðust Þjóðverjar nú, ásamt Spánverjum, fyrir því að rétturinn til aðgangs að hreinu vatni væri viðurkenndur sem mannréttindi. Þó bæri að varast að líta á aðgang að öllum hugsanlegum varningi sem mannréttindi – með því væri hugtakið gengisfellt. Hvað efnahagsmál varðar lagði hann áherslu á að niðurskurður opinberra útgjalda væri eina sjálfbæra leiðin til að bregðast við efnahagskreppunni. Í umræðum var Westerwelle m.a. spurður um afstöðu Þjóðverja til aðgerða Frakka gegn ólöglegum búðum innflytjenda. Hafnaði hann að tjá sig sérstaklega um aðgerðir annarra ríkja í þessu sambandi en lagði áherslu á að fylgja þyrfti evrópskum reglum í hvívetna.
    Angel Gurría, aðalframkvæmdastjóri OECD, flutti erindi í umræðum um starfsemi stofnunarinnar á árunum 2009–2010 og sat fyrir svörum. Í máli hans kom m.a. fram að líkur væru á litlum hagvexti um allnokkurt skeið – aðeins væri spáð 1,5% hagvexti í G7-ríkjunum á seinni helmingi ársins 2010, en ekki 2,5% eins og áður hafði verið gefið út. Þjóðarframleiðsla og atvinnustig í aðildarríkjum OECD mundu taka mörg ár að ná sama styrk og fyrir kreppu. Varaði hann við því að ef skuldastaða hins opinbera í aðildarríkjum OECD héldi áfram að versna mundu vextir hækka með þeim afleiðingum að draga mundi úr fjárfestingu einkaaðila í hagkerfinu. Nauðsynlegt væri að bregðast við versnandi skuldastöðu hins opinbera með afgerandi hætti. Þar sem hækka þyrfti skatta ætti fyrst og fremst að líta til þeirra skatta sem hefðu minnst neikvæð áhrif á hagvöxt, svo sem neyslu- og eignaskatta.
    Lilja Mósesdóttir tók til máls í umræðunni um starfsemi OECD fyrir hönd síns flokkahóps. Taldi hún að stefna bæri að umhverfisvænni og hreinni hagvexti og gagnrýndi stofnunina fyrir að hafa ekki séð betur hættumerkin í fjármálakerfi þeirra landa sem verst hafa komið út úr kreppunni. Að hennar mati stæði Evrópa nú frammi fyrir stjórnmálakreppu vegna afleitrar skuldastöðu bæði hins opinbera og heimila. Veiting á opinberu fé til að bjarga bankakerfinu þýddi að mikill þrýstingur væri á að hækka skatta og skera niður í velferðarmálum. Hún gagnrýndi jafnframt að þar sem hið opinbera hefði hlaupið undir bagga með bankakerfinu hefðu bankar ekki verið neyddir til að afskrifa skuldir. Tilfinning margra væri sú að þeir eignameiri fengju skuldir sínar afskrifaðar meðan þeir sem minna mega sín sætu oft eftir með sárt ennið. Sú tilfinning hefði skapað vantraust á stofnunum lýðræðisins sem nauðsynlegt væri að bregðast við.
    Þingið samþykkti einnig tvær ályktanir og þrenn tilmæli varðandi málefni barna. Fyrst má nefna tilmæli um aðgerðir til að tryggja réttindi barna sem orðið hafa fyrir ofbeldi á opinberum stofnunum en í þeim hvetur þingið ráðherraráð Evrópuráðsins til að styrkja lagalega vernd barna gegn ofbeldi, huga að hugsanlegum misbrestum í núverandi stofnanakerfi og hvetja aðildarríki til að fullgilda og framfylgja alþjóðlegum sáttmálum á þessu sviði, svo sem barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningi Evrópuráðsins gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun barna. Einnig samþykkti þingið ályktun og tilmæli um börn sem ekki njóta umönnunar foreldra. Þar er m.a. hvatt til þess að foreldralausum börnum sé gert kleift að njóta umönnunar sem sé sem líkust fjölskylduumhverfinu. Loks samþykkti þingið ályktun og tilmæli varðandi réttindi barna sem glíma við veikindi eða fötlun til að njóta menntunar til jafns við börn sem njóta fulls heilbrigðis en í henni er m.a. lögð áhersla á að hin fyrrnefndu sæki sömu skóla og önnur börn en séu ekki sett í sérskóla. Með því sé ekki einungis tryggt að þau njóti sambærilegrar menntunar heldur stuðli það einnig að auknu umburðarlyndi í samfélaginu og skilningi á aðstæðum veikra og fatlaðra barna.
    Þróun lýðræðisstofnana í Úkraínu var einnig á dagskrá þingsins, m.a. í kjölfar þess að stjórnlagadómstóll landsins dæmdi ógilda þá stjórnarskrá sem sett var í kjölfar „appelsínugulu“ byltingarinnar svokölluðu. Í ályktun sinni lagði þingið áherslu á að yfirvöld í Úkraínu réðust sem fyrst í umbætur á stjórnarskránni og kallaði sérstaklega í því sambandi eftir breytingum á kosningalögunum, embætti saksóknara og dómskerfinu. Þá hvatti þingið til að yfirvöld hertu baráttuna gegn spillingu og lýsti áhyggjum sínum af fregnum um að lýðræðisleg réttindi, svo sem tjáningar- og fjölmiðlafrelsi, hefðu sætt takmörkunum.
    Á þinginu fór fram kosning nýs framkvæmdastjóra Evrópuráðsþingsins. Í kjöri voru Hollendingurinn Jan Kleijssen og Pólverjinn Wojciech Sawicki og hafði hinn síðarnefndi betur með nokkrum yfirburðum. Einnig fór fram kosning dómara við Mannréttindadómstól Evrópu og hlutu kosningu þau Julia Laffranque fyrir Eistland og Linos Sicilianos fyrir Grikkland. Portúgalir voru aftur á móti beðnir um að leggja fram nýjan lista með tilnefningum þar sem þingið taldi skorta á að allir þeir sem tilnefndir voru væru nógu hæfir.
    Einnig fór fram sérstök athöfn í tilefni af því að 60 ár eru liðin frá gildistöku mannréttindasáttmála Evrópu þar sem tóku til máls Mevlüt Çavusoglu, forseti Evrópuráðsþingsins, og Jean-Paul Costa, forseti Mannréttindadómstólsins.

6. Nefndarfundir utan þinga.
    Formaður Íslandsdeildar sótti fundi stjórnarnefndar og framkvæmdastjórnar þingsins í París í mars.

Alþingi, 14. mars 2011.



Lilja Mósesdóttir,


form.


Mörður Árnason,


varaform.


Birkir J. Jónsson.




Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2010.


    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2010:

Fyrsti hluti þingfundar 25.–29. janúar:
          Ályktun 1700 um ástandið í Miðausturlöndum.
          Ályktun 1701 um virkni lýðræðisstofnana í Bosníu og Hersegóvínu.
          Ályktun 1702 um Evrópusamninginn um aðgerðir gegn mansali.
          Ályktun 1703 um spillingu innan löggæslu.
          Ályktun 1704 um trúarbragðafrelsi og önnur mannréttindi minni hluta í Tyrklandi sem eru ekki íslamstrúar og minni hluta múslima í Þrakíu (Austur-Grikklandi).
          Ályktun 1705 um þröskulda og aðra þætti kosningakerfa sem hafa áhrif á val fulltrúa til þingsetu í aðildarríkum Evrópuráðsins.
          Ályktun 1706 um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum í krafti fyrirkomulags kosningakerfa.
          Ályktun 1707 um gæsluvarðhaldsvist þeirra sem leita hælis eða búsetu í Evrópu.
          Ályktun 1708 um úrlausn á vanda flóttamanna varðandi eignir.
          Ályktun 1709 um virkni lýðræðisstofnana í Albaníu.
          Tilmæli 1894 um virkni lýðræðisstofnana í Bosníu og Hersegóvínu.
          Tilmæli 1895 um Evrópusamninginn um aðgerðir gegn mansali.
          Tilmæli 1896 um spillingu innan löggæslu.
          Tilmæli 1897 um fjölmiðlafrelsi.
          Tilmæli 1898 um þröskulda og aðra þætti kosningakerfa sem hafa áhrif á val fulltrúa til þingsetu í aðildarríkum Evrópuráðsins.
          Tilmæli 1899 um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum í krafti fyrirkomulags kosningakerfa.
          Tilmæli 1900 um gæsluvarðhaldsvist þeirra sem leita hælis eða búsetu í Evrópu.
          Tilmæli 1901 um úrlausn á vanda flóttamanna varðandi eignir.
          Tilmæli 1902 um virkni lýðræðisstofnana í Albaníu.
          Tilmæli 1903 um að 15 ár eru liðin frá alþjóðlegu fólksfjöldaráðstefnunni.

Stjórnarnefndarfundur 12. mars:
          Ályktun 1710 um kjörtímabil meðskýrsluhöfunda í eftirlitsnefndinni.
          Ályktun 1711 um reglur og verklag við kosningu framkvæmdastjóra Evrópuráðsins – drög að sameiginlegri túlkun ráðherranefndarinnar og þingsins.
          Ályktun 1712 um breytingar á samsetningu framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins.
          Ályktun 1713 um verndun minnihlutahópa í Evrópu: fyrirmyndir og mistök í innleiðingu sameiginlegra viðmiða.
          Ályktun 1714 um börn sem verða vitni að heimilisofbeldi.
          Ályktun 1715 um kynbundinn launamun.
          Tilmæli 1904 um verndun minnihlutahópa í Evrópu: fyrirmyndir og mistök í innleiðingu sameiginlegra viðmiða.
          Tilmæli 1905 um börn sem verða vitni að heimilisofbeldi.
          Tilmæli 1906 um endurskoðun á stafrænu frelsi (e. creative rights) á netöld.
          Tilmæli 1907 um kynbundinn launamun.
          Álit 276 um drög að sáttmála Evrópuráðsins um aðgerðir gegn fölsuðum lyfjum og sambærilegum glæpum sem fela í sér ógn við almannaheilsu.
          Álit 277 um drög að viðauka við samning Evrópuráðsins og Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.

Annar hluti þingfundar 26.–30. apríl:
          Ályktun 1716 um að virkja konur til að fyrirbyggja og leysa óleyst átök í Evrópu.
          Ályktun 1717 um félagsleg áhrif efnahagskreppunnar.
          Ályktun 1718 um áhrif heimskreppunnar á fólksflutninga í Evrópu.
          Ályktun 1719 um konur og efnahags- og fjármálakreppuna.
          Ályktun 1720 um að stuðla að samheldni fjölskyldunnar sem þróunarþætti á krepputímum.
          Ályktun 1721 um hvernig megi samrýma auð, velferð og vellíðan í Evrópu.
          Ályktun 1722 um sjórán sem glæp og áskorun fyrir lýðræðisríki.
          Ályktun 1723 um að minnast fórnarlamba hungursneyðarinnar miklu (Holodomor) í fyrrum Sovétríkjunum.
          Ályktun 1724 um skyldu Svartfjallalands til að standa við skuldbindingar sínar.
          Ályktun 1725 um brýna þörf fyrir stjórnarskrárumbætur í Bosníu og Hersegóvínu.
          Ályktun 1726 um framkvæmd mannréttindasáttmála Evrópu og Interlaken-ferlið.
          Ályktun 1727 um stöðuna og nýlega atburði í Hvíta-Rússlandi.
          Ályktun 1728 um mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynferðislegrar sjálfsmyndar.
          Ályktun 1729 um vernd uppljóstrara.
          Ályktun 1730 um samráð við Búlgaríu að aflokinni vöktun (e. monitoring).
          Ályktun 1731 um að kalla eftir aðgerðaáætlun frá Evrópuráðinu fyrir Miðjarðarhafssvæðið.
          Tilmæli 1908 um hagsmunagæslu í lýðræðissamfélögum (evrópskar siðareglur um hagsmunagæslu).
          Tilmæli 1909 um að virkja konur til að fyrirbyggja og leysa óleyst átök í Evrópu.
          Tilmæli 1910 um áhrif heimskreppunnar á fólksflutninga í Evrópu.
          Tilmæli 1911 um konur og efnahags- og fjármálakreppuna.
          Tilmæli 1912 um að stuðla að samheldni fjölskyldunnar sem þróunarþætti á krepputímum.
          Tilmæli 1913 um þörf til að grípa til frekari lagalegra aðgerða á alþjóðavettvangi til að stemma stigu við sjóránum.
          Tilmæli 1914 um brýna þörf fyrir stjórnarskrárumbætur í Bosníu og Hersegóvínu.
          Tilmæli 1915 um mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynferðislegrar sjálfsmyndar.
          Tilmæli 1916 um vernd uppljóstrara.
          Tilmæli 1917 um innflytjendur og flóttamenn sem áframhaldandi áskorun fyrir Evrópuráðið.
          Tilmæli 1918 um líffræðilegan fjölbreytileika og loftslagsbreytingar.
          Tilmæli 1919 um að kalla eftir aðgerðaáætlun frá Evrópuráðinu fyrir Miðjarðarhafssvæðið.

Stjórnarnefndarfundur 21. maí:
          Ályktun 1732 um að styrkja áhrif sáttmála Evrópuráðsins.
          Ályktun 1733 um að hertar aðgerðir gegn kynferðisbrotamönnum.
          Ályktun 1734 um útgjöld Evrópuráðsþingsins fyrir fjárhagsárið 2011.
          Ályktun 1735 um evrópska flugvélaiðnaðinn og heimskreppuna.
          Ályktun 1736 um siðareglur á sviði stjórnmálaflokka.
          Ályktun 1737 um jarðvarmaorku.
          Tilmæli 1920 um að styrkja áhrif sáttmála Evrópuráðsins.
          Tilmæli 1921 um kynjagreiningu fjárlaga sem tæki til að vernda heilsu kvenna.
          Álit 278 um drög að þriðja viðauka við Evrópusamning um framsal sakamanna.

Þriðji hluti þingfundar 21.–25. júní:
          Ályktun 1738 um lagaleg úrræði vegna mannréttindabrota í Norður-Kákasus.
          Ályktun 1739 um ástandið í Kósóvó og hlutverk Evrópuráðsins.
          Ályktun 1740 um stöðu sígauna í Evrópu og aðgerðir Evrópuráðsins í því sambandi.
          Ályktun 1741 um endurkomusamninga: leið til að snúa við ólöglegum innflytjendum.
          Ályktun 1742 um leiðir til að fá ólöglega innflytjendur til að snúa til baka af fúsum og frjálsum vilja: áhrifamikil, mannúðleg og ódýr leið.
          Ályktun 1743 um íslam, íslamista og múslimafælni í Evrópu.
          Ályktun 1744 um gerendur aðra en formlegar stofnanir í lýðræðiskerfum.
          Ályktun 1745 um pólitískar afleiðingar efnahagskreppunnar.
          Ályktun 1746 um lýðræði í Evrópu: kreppa og sjónarmið.
          Ályktun 1747 um stöðu lýðræðis og stöðuskýrsla um eftirlitsstarfsemi Evrópuráðsþingsins.
          Ályktun 1748 um aukna spennu í Miðausturlöndum.
          Ályktun 1749 um viðbrögð við svínaflensunni og aukið gagnsæi.
          Ályktun 1750 um virkni lýðræðislegra stofnana í Aserbaídsjan.
          Ályktun 1751 um baráttu gegn kynbundnum staðalímyndum í fjölmiðlum.
          Ályktun 1752 um mannsæmandi eftirlaun fyrir konur.
          Ályktun 1753 um skóga og framtíð jarðar.
          Ályktun um viðbrögð við svínaflensunni og aukið gagnsæi.
          Tilmæli 1922 um lagaleg úrræði vegna mannréttindabrota í Norður-Kákasus.
          Tilmæli 1923 um ástandið í Kósóvó og hlutverk Evrópuráðsins.
          Tilmæli 1924 um stöðu sígauna í Evrópu og aðgerðir Evrópuráðsins í því sambandi.
          Tilmæli 1925 um endurkomusamninga: tæki til að snúa við ólöglegum innflytjendum.
          Tilmæli 1926 um leiðir til að fá ólöglega innflytjendur til að snúa til baka af fúsum og frjálsum vilja: áhrifamikil, mannúðleg og ódýr leið.
          Tilmæli 1927 um íslam, íslamista og múslimafælni í Evrópu.
          Tilmæli 1928 um um lýðræði í Evrópu: kreppa og sjónarmið.
          Tilmæli 1929 um viðbrögð við svínaflensunni og aukið gagnsæi.
          Tilmæli 1930 um bann við markaðssetningu og notkun hátíðnihljóðbúnaðar til að leysa upp hópa ungs fólks.
          Tilmæli 1931 um baráttu gegn kynbundnum staðalímyndum í fjölmiðlum.
          Tilmæli 1932 um mannsæmandi eftirlaun fyrir konur.
          Álit 279 um fjárlög og forgangsröðun Evrópuráðsins fjárlagaárið 2011.

Fjórði hluti þingfundar 4.–8. október:
          Ályktun 1754 um baráttuna gegn öfgastefnu.
          Ályktun 1755 um virkni lýðræðisstofnana í Úkraínu.
          Ályktun 1756 um þörf á að koma í veg fyrir að starfsemi Evrópuráðsins og Stofnunar ESB um grundvallarmannréttindi skarist.
          Ályktun 1757 um mannréttindi og viðskiptalífið.
          Ályktun 1758 um starfsemi Efnahags- og samvinnustofnunar Evrópu (OECD) árin 2009–2010.
          Ályktun 1759 um starfsemi Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD) árið 2009.
          Ályktun 1760 um málefni sígauna í Evrópu.
          Ályktun 1761 um að tryggja rétt veikra og fatlaðra barna til menntunar.
          Ályktun 1762 um börn sem ekki njóta umönnunar foreldra.
          Ályktun 1763 um réttinn til samviskubundinnar andstöðu í tengslum við veitingu lögbundinnar heilbrigðisþjónustu.
          Ályktun 1764 um verklagsreglur aðildarríkja varðandi tilnefningu dómara við Mannréttindadómstól Evrópu.
          Ályktun 1765 um hælisumsóknir sem tengjast kynbundnu ofbeldi.
          Ályktun 1766 um að hlúa að félagslegri og efnahagslegri þróun á Eystrasaltssvæðinu.
          Tilmæli 1933 um baráttuna gegn öfgaöflum.
          Tilmæli 1934 um þörf á að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum á opinberum stofnunum.
          Tilmæli 1935 um þörf á að koma í veg fyrir að starfsemi Evrópuráðsins og Stofnunar ESB um grundvallarmannréttindi skarist.
          Tilmæli 1936 um mannréttindi og viðskiptalífið.
          Tilmæli 1937 um stefnu, stjórnun og virkni Þróunarbanka Evrópuráðsins.
          Tilmæli 1938 um að tryggja rétt veikra og fatlaðra barna til menntunar.
          Tilmæli 1939 um börn sem ekki njóta umönnunar foreldra.
          Tilmæli 1940 um hælisumsóknir sem tengjast kynbundnu ofbeldi.

Stjórnarnefndarfundur 12. nóvember:
          Ályktun 1767 um lýðfræðilega framtíð Evrópu og fólksflutninga.
          Ályktun 1768 um hælisleitendur af sígaunaættum í Evrópu.
          Ályktun 1769 um að styrkja aðgerðir til að vernda og endurvekja tungumál sem hætta er á að deyi út.
          Ályktun 1770 um evrópskan sáttmála um svæðisbundin tungumál og minnihlutatungumál.
          Ályktun 1771 um alþjóðlega viðurkennda stöðu kosningaeftirlitsmanna.
          Ályktun 1772 um að endurvekja samskipti Evrópuráðsþingsins og Bandaríkjaþings.
          Ályktun 1773 um að stuðla að aukinni þátttöku þjóðþinga í alþjóðlegum samskiptum.
          Ályktun 1774 um að bæta orkuöryggi Evrópu með aukinni notkun fljótandi jarðgass.
          Ályktun 1775 um hernaðarúrgang og umhverfið.
          Ályktun 1776 um hávaða- og ljósmengun.
          Ályktun 1777 um að stuðla að forvörnum gegn fíkn í fjárhættuspil á netinu.
          Ályktun 1778 um að auka veg sjálfboðavinnu í Evrópu.
          Ályktun 1779 um samvinnu milli Evrópuráðsins og ríkja Norður-Afríku á sviði félagslegrar samheldni.
          Ályktun 1780 um að vinna að framgangi laga um jafnrétti kynjanna í Evrópu.
          Ályktun 1781 um að minnst 30% fulltrúa í landsdeildum Evrópuráðsþingsins séu af því kyni sem er í minni hluta.
          Tilmæli 1941 um hælisleitendur af sígaunaættum í Evrópu.
          Tilmæli 1942 um björgun fornleifauppgötvana í byggingaverkefnum.
          Tilmæli 1943 um styrkingu aðgerða til að vernda og endurlífga tungumál sem hætta er á að glatist.
          Tilmæli 1944 um evrópskan sáttmála um svæðisbundin tungumál og tungumál minnihlutahópa.
          Tilmæli 1945 um alþjóðlega viðurkennda stöðu kosningaeftirlitsmanna.
          Tilmæli 1946 um hernaðarúrgang og umhverfið.
          Tilmæli 1947 um hávaða- og ljósmengun.
          Tilmæli 1948 um að auka veg sjálfboðavinnu í Evrópu.
          Tilmæli 1949 um að vinna að framgangi laga um jafnrétti kynjanna í Evrópu.